2.5.2011

Mánudagur 02. 05. 11.

Skaðvaldurinn Osama bin Laden, leiðtogi Al-kaída hryðjuverkasamtakanna, var drepinn í gær í víggirtri húsaþyrpingu skammt frá stórum herskóla nokkra tugi kílómetra frá Islamabad, höfuðborg Pakistans. Sérsveitarmenn bandaríska flotans réðust í þyrlum inn á hið víggirta svæði. Féll Osama bin Laden þegar lífverðir hans snerust gegn sérsveitarmönnunum. Obama, Bandaríkjaforseti, heimilaði aðgerðina föstudaginn 29. apríl, eftir að sannað þótti að tilgáta CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna, um þennan felustað bin Ladens væri rétt. Fögnuður braust út í Bandaríkjunum að kvöldi 1. maí, þegar Obama ávarpaði þjóðina og sagði henni tíðindin af örlögum bin Ladens.

Það var löngu orðið tímabært að hafa hendur í hári þessa illvirkja. Má segja að hann hafi nú hlotið makleg málagjöld. Víða um heim en þó einkum í Bandaríkjunum og Pakistan hafa stjórnvöld hert öryggisráðstafanir ef einhverjum fylgismönnum bin Ladens skyldi koma til hugar að hefna hans með því að vinna ódæðisverk á saklausum borgurum.

Ég vek athygli á því að fimmtudaginn 5. maí klukkan 12.15 boðar Varðberg til hádegisverðarfundar að hótel Sögu (norðurenda) þar sem James J. Townsend, aðstoðarráðherra varnarmála í Bandaríkjunum, flytur ræðu í tilefni af 60 ára afmæli varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Fundurinn er öllum opinn og kostar málsverðurinn 2.500 kr.