29.5.2011

Sunnudagur 29. 05. 11.

Jóhanna Sigurðardóttir bauðst til að leggja niður nafn Samfylkingarinnar á fundi flokksstjórnar í dag ef það mætti verða til þess að ESB-aðildarsinnar í Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki vildu ganga til samstarfs við sig. Það er til marks um ótrúlegt fréttamat RÚV á því sem gerðist á fundinum að ekki skyldi sagt frá þessum orðum í ræðu formanns Samfylkingarinnar. Pressan, Stöð 2 og mbl.is kveiktu á þessum fréttapunkti, sögðu frá honum og leituðu álits ESB-aðildarsinnans Þorsteins Pálssonar í Sjálfstæðisflokknum og þingmannsins Vigdísar Hauksdóttur í Framsóknaflokknum. Þau höfnuðu bæði hugmynd Jóhönnu. Um þetta má lesa á Evrópuvaktinni.

Fyrir viku efndu vinstri-grænir til flokksráðsfundar þar sem allt lék á reiðiskjálfi vegna óánægju með Steingrím J. Sigfússon sem þótti flytja lélega ræðu. Pólitískt fréttamat RÚV var þá á þann veg að mikill einhugur ríkti meðal vinstri-grænna. Þarna var augljóslega um einhliða áróður Steingríms J. og hans manna að ræða. Illdeilur voru síður en svo settar niður meðal vinstri-grænna á þessum fundi.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að pólitískar fréttir RÚV séu svo yfirborðslegar að þær séu beinlínis til þess fallnar að gefa ranga mynd af stjórnmálastöðunni í landinu. Fréttastofan er frekar eins og framlenging á upplýsingafulltrúum ráðherranna en að þar ríki áhugi eða geta til þess að setja stjórnmálaviðburði í samhengi.