17.5.2011

Þriðjudagur 17. 05. 11.

Í dag tók ég upp þátt minn á ÍNN sem verður sýndur annað kvöld klukkan 20.00. Að þessu sinni ræði ég við Jóhannes Bjarna Sigtryggsson, ritstjóra Handbókar um íslenskt mál, sem kom út hjá Forlaginu fyrir nokkrum vikum en er samin á Árnastofnun.

Þessi nýja bók á erindi til allra sem vilja vanda sig við ritstörf en undir þau felli ég allt frá skrifum á tölvu til ritunar bóka. Í handbókinni eru meðal annars ábendingar um ritun tölvubréfa en ekki er síður nauðsynlegt að setja þau á skipulegan hátt en annars konar bréf.

Þegar ég starfaði á Morgunblaðinu á sínum tíma hittumst við starfsmenn erlendu deildarinnar reglulega, einn okkar fór yfir blaðið og vakti máls á því sem hann taldi að betur mætti fara. Urðu umræður oft líflegar enda álitaefnin mörg. Saknaði ég þess oft að engin slík handbók væri fyrir hendi þar sem leita mætti svara við álitaefnum.

Meðal þess sem við Jóhannes Bjarni ræðum er spurningin um hvenær nota eigi stóran eða lítinn staf, t. d. þegar talað er um stofnanir. Eins og lesendur mínir sjá er ég vinur litla stafsins.

Ég mæli með þessari bók. Hún er kjörin, vilji menn gefa hagnýta gjöf til þeirra sem nú eru að ljúka prófum.