6.5.2011

Föstudagur 06. 05. 11.

Ég las á vefsíðu að Jóhanna Sigurðardóttir segðist hafa rætt efni hins nýja frumvarps um breytingu á stjórnarráðslögunum við einhverja fyrrverandi forsætisráðherra. Átti staðhæfingin að styðja þann málstað hennar að rústa skipulagi stjórnarráðsins sem hefur dugað vel í rúm 40 ár. Þeir sem ræddu þetta á netinu bentu á að fjórir forverar Jóhönnu í embætti forsætisráðherra væru nú á lífi: Þorsteinn Pálsson, Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson og Geir H, Haarde. Veltu menn því síðan fyrir hver eða hverjir úr hópi þessara fjórmenninga hefðu setið á hljóðskrafi með Jóhönnu um breytingar á stjórnarráðinu.

Ég hef setið með þessum mönnum í ríkisstjórn og í tíð Halldórs Ásgrímssonar var okkur ráðherrum Árna Magnússyni og mér falið að íhuga tillögur um breytingar á stjórnarráðinu, sem við gerðum. Að í þeim umræðum kæmu fram sjónarmið sem nálguðust það sem birtist í frumvarpi Jóhönnu er fjarri sanni. Ég leyfi mér að draga í efa að nokkur þessara fjögurra fyrrverandi forsætisráðherra hafi látið hrun bankakerfisins hafa þau áhrif á sig að þeim þætti brýnasta viðfangsefni forsætisráðherra að kollvarpa skipan stjórnarráðsins og sölsa undir sig meira vald.

Ég vona að þingmenn gangi á eftir því við Jóhönnu við hvaða fyrrverandi forsætisráðherra hún hefur rætt til að styrkjast í þeirri trú að hún sé á réttri braut við að eyðileggja stjórnarráðið.

Stuðningsmenn Samfylkingarinnar á vefsíðunni Eyjunni  tóku það óstinnt upp að ég hefði sagt Álfheiði Ingadóttur skýra frá því á þingi að vinstri-grænir styddu ekki stjórnarráðsfrumvarp Jóhönnu, því að hún hefði einmitt sagt að þingflokkurinn styddi „framlagningu“ frumvarpsins. Þessi skoðun Eyjumanna sýnir aðeins að þeir eru með öllu ókunnugir því hvernig stjórnarþingmenn standa að málum. Styðji þingflokkur framlagningu máls vill hann ekki standa gegn því að það sé lagt fram til umræðu. Með orðalaginu er sagt að þingflokkurinn hafi ekki tekið afstöðu til efnis frumvarpsins og styðji það í raun ekki.