28.5.2011

Laugardagur 28. 05. 11.

Gestur minn á ÍNN 18. maí var Jóhannes B. Sigtryggsson, ritstjóri Handbókar um íslensku. Þáttinn má sjá hér.

Andrés Magnússon blaðamaður ritar um bók mína Rosabaug yfir Íslandi Í Morgunblaðið í dag. Hann gefur bókinni fjórar stjörnur af fimm og fagna ég þeim dómi. Þar segir í lokin:

Rosabaugur yfir Íslandi veitir heildstæða mynd af átökunum á árunum fyrir hrun.

Þar má á einum stað finna ótal heimildir um opinbera umræðu, þar sem margir létu glepjast, aðrir vildu glepjast og sumir höfðu þann starfa að glepja. Bókin er ómetanleg öllum þeim vilja skilja íslenskt samfélag á dögum bólunnar miklu, þann ofmetnað og ofstopa, sem átti drjúgan þátt í hruninu og gerði það miklu verra en ella. Hún er skyldulesning fyrir allir áhugamenn um íslensk þjóðmál, stjórnmál og ekki síst fjölmiðla.“

Þegar ég lít yfir ummæli um bókina þykir mér sérkennilegast að sjá uppnámið hjá Agli Helgasyni, álitsgjafa og þáttastjórnanda hjá RÚV. Hann stjórnar bæði þjóðmála- og bókmenntaþætti á hinum óhlutdræga ríkisfjölmiðli. Að vísu er skrúfað fyrir þættina í nokkra mánuði á ári. Væru þeir í loftinu núna er augljóst að bók mín nyti ekki sannmælis í RÚV, henni yrði annaðhvort úthýst úr þáttum Egils eða efni hennar afflutt.

Ástæðan fyrir reiði Egils er að ég vitna í ummæli hans í frásögn minni. Honum finnst það greinilega óþægilegt. Þá heldur hann því ranglega fram að ég uppnefni fólk í bókinni.

Óvild Egils í minn garð er ekkert nýnæmi. Hún minnir því á þá staðreynd að þrátt fyrir hrun bankanna og margvísleg umskipti í þjóðfélaginu sitjum við enn uppi með fjölmiðlamenn sem lögðu sitt af mörkum til þess ástands sem leiddi til hrunsins. Þar hefur ekkert breyst.

Klukkan 17.00 fór ég í Hörpu og hlýddi á Sinfóníuhljómsveit Íslands flytja 4. sinfóníu Gustavs Mahlers. Glæsilegir tónleikar.