4.5.2011

Miðvikudagur 04. 05. 11.

Tímamót: fyrstu tónleikar í Hörpu, ógleymanleg stund.

Strax og ég varð menntamálaráðherra 23. apríl 1995 spurðu fjölmiðlar mig hvenær ég ætlaði að taka af skarið um byggingu tónlistarhúss, ég sagðist mundu gera það fyrir lok kjörtímabilsins vorið 1999. Það gekk í ársbyrjun 1999 voru áformin um tónlistarhúsið kynnt og menningarhús úti á landbyggðinni. Hof var vígt á Akureyri í ágúst 2010.

Mér kom þetta í hug þegar ég sat og hlustaði á Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimirs Ashkenazys í tónlistarhúsinu Hörpunni í kvöld. Fjarlægur draumur orðinn að veruleika, húsið risið og Ashkenazy að stjórna 9. sinfóníu Beethovens.

Hér á síðunni má lesa þessa færslu frá árinu 1996:

„Í hádegi fimmtudagsins 4. júlí átti ég þess kost að hitta Vladimir Ashkenazy með Stefáni Pétri Eggertssyni, formanni nefndar, sem kannar kosti og galla nýs tónlistarhúss. Fórum við yfir stöðu málsins en eins og menn hafa séð í blöðum er Ashkenazy mikill áhugamaður um, að í smíði þessa húss verði ráðist og telur raunar hina mestu hneisu, að það skuli ekki hafa verið gert fyrir löngu.“

Á þessum fundi benti Ashkenazy okkur Stefáni Pétri á að leita samstarfs við bandaríska hljómburðar sérfræðinga hjá fyrirtækinu Artec í New York, þeir hönnuðu bestu salina. Þetta gekk eftir og Stefán Pétur hefur fylgt málinu til enda. Hljómburðurinn er frábær eins og Ashkenazy spáði. Við ákváðum einnig þennan dag í júlí 1996 að Ashkenazy mundi stjórna 9. sinfóníunni á fyrstu tónleikum í húsinu. Það gekk eftir.

Hinn 9. október árið 2000 hitti ég Artec menn í skrifstofu þeirra í New York. Þeir sögðu mér að reynsla þeirra kenndi þeim að það tæki um 13 ár frá ákvörðun um byggingu tónlistarhúss eins og við Íslendingar vildum reisa að fenginni ráðgjöf þeirra, þar til húsið kæmist í gagnið. Frá því að  ríkisstjórnin tók ákvörðun um að ráðast í smíði tónlistarhússins 5. janúar 1999 til 4. maí 2011 eru 12 ár og fjórir mánuðir, árin eru hins vegar tæplega 15 síðan við Stefán Pétur hittum Ashkenazy og gengum af hans fundi staðráðnir í að tómlistarhúsið skyldi rísa.

Dagsins í dag verður minnst sem upphafsdags nýrra tíma í tónlistar- og menningarsögu þjóðarinnar.