26.5.2011

Fimmtudagur 26. 05. 11.

Í dag fór ég í tvö fjölmiðlaviðtöl vegna bókar minnar Rosabaugur yfir Íslandi. Fyrst við Ingva Hrafn Jónsson á Hrafnaþingi hans á ÍNN og síðan við þá félaga Kristófer og Þorgeir í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Eins og gefur að skilja hafði viðmælendum mínum ekki unnist tími til að lesa 432 síðna bókina sem kom út í gær. Kynni þeirra af efni hennar nægðu þó til að þeir áttuðu sig allir á því að tilgangur minn er ekki að halda einhverri skoðun að lesandanum heldur draga saman efni svo að hann geti sjálfur áttað sig á samhengi hlutanna.  Sýn á málið í heild vekur mönnum skilning á því hve afflutt eðli þess hefur verið.

Eiríkur Ingvarsson setur inn á fésbókarsíðu sína:

„Les Rosabaug eftir Björn Bjarnason. Góð lesning. Mjög hissa á að ekki sé umfjöllun í öllum fjölmiðlum um innihald bókarinnar. Er að öllum líkindum ekki kominn nægjanlega langt í bókinni til að skilja það...bókin er nánast eins og reyfari.“

Tilgangur minn er að auðvelda skilning á máli sem mótaði umræður, stjórnmál, viðskiptalíf og fjölmiðla frá 2002 til 2008. Margir þeirra sem hæst höfðu í fjölmiðlum þá og sitja þar enn hafa líklega ekki áhuga á að vekja athygli efni bókarinnar. Þeir vilja gefa aðra mynd af henni en við blasir þegar hún er lesin.

Egill Helgason er einn þessara fjölmiðlamanna. Hann segir meðal annars á vefsíðu sinni 26. maí:

„Klíkur hafa lengi verið ein ógæfa Íslands. Tvær klíkur börðust af mikilli heift á árunum fyrir hrun. Báðar voru ofboðslega frekar.

Í báðum klíkunum eru hrunvaldar og hrunverjar.

Þessi átök halda áfram, nú i bók eftir Björn Bjarnason. Nú skal enn gerð  tilraun til að koma að „réttum“ söguskilningi.

Vandinn er bara sá að það slettist á marga sem tóku lítinn eða engan þátt  í þessu stríði.“

Egill hefur greinilega ekki lesið bókina þegar hann setur þetta inn á síðu sína. Ég er ekki að koma að öðrum skilningi á Baugsmálinu en blasir við hverjum og einum við lestur opinberra gagna. Egill kemur við sögu í bókinni eins og hann hefur séð í nafnaskránni. Hann segir:

„Í bók Björns birtast ábyggilega ummæli eftir marga sem verða túlkuð í neyðarlegu ljósi. Jú, einhver sagði eitthvað einhvern tíma. Einhverjir verða ábyggilega uppnefndir.“

Það er dæmigert fyrir óvandaða umfjöllun fjölmiðlamanna eða álitsgjafa að lýsa Baugsmálinu sem klíku-átökum. Sú skoðun fellur að meginkenningu Baugsmanna um að lögregla hafi rekið erindi stjórnmálamanna þegar hún gerði húsleit hjá Baugi 28. ágúst 2002. Þessi kenning stenst ekki skoðun eins sjá má kynni menn sér Baugsmálið.