30.5.2011

Mánudagur 30. 05. 11.

Nú hafa vinstri grænir á þingi, það er þingmenn flokksins án tillits til klofnings innan þingflokksins og Þráinn Bertelsson, flutt tillögu á alþingi um úrsögn Íslands úr NATO. Hér á Evrópuvaktinni má fræðast um rökin fyrir tillögunni.

Tillagan minnir á kalda stríðið þegar Alþýðubandalagið, forveri VG, skipaði sér ávallt í sveit með þeim sem voru andvígir þátttöku Íslands í vestrænni samvinnu. Frá lyktum kalda stríðsins er óþekkt að nokkur stjórnarflokkur í Evrópu aðhyllist þá skoðun sem kemur fram í þessari tillögu vinstri grænna um úrsögn úr NATO.

Þessi tillaga er ögrun við Jóhönnu Sigurðardóttur og Össur Skarphéðinsson sem bera beina ábyrgð á aðild Íslands að hernaðaraðgerðum NATO í Líbíu. Þær urðu kveikjan að þessari einstæðu tillögu vinstri grænna. Hafi tillagan verið flutt án vitundar Jóhönnu og Össurar jafngildir hún  yfirlýsingu um stjórnarslit. Hafi þau fallist á að tillagan yrði flutt eru þau marklaus út á við gagnvart ríkisstjórnum annarra NATO-ríkja.

Ríkisstjórn Jóhönnu hefur klofið þjóðina með ESB-aðildarumsókninni, hún hefur tapað tveimur atkvæðagreiðslum um Icesave, stjórnin hefur staðið að ógildum kosningum um stjórnlagaþing en ögrar nú hæstarétti með stjórnlagaráði, ríkisstjórnin stendur gegn stóriðjuframkvæmdum, hún hefur sett fiskveiðar og fiskvinnslu í uppnám, ríkisstjórnin hefur selt skuldir almennings í hendur erlendum vogunarsjóðum í stað þess að reisa skjaldborg um heimilin, ríkisstjórnin hefur lagt fram lagafrumvarp sem eyðileggur innviði stjórnarráðsins og nú krefst helmingur ríkisstjórnarinnar úrsagnar úr NATO. Hvenær skyldi stjórnarandstaðan ná vopnum sínum?