9.5.2011

Mánudagur 09. 05. 11.

Þráinn Bertelsson ræður úrslitum um meirihluta ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur eins og sannaðist í atkvæðagreiðslu á alþingi á dögunum. Hann má sín því mikils. Hann minnti á það í þann mund sem fundi í Þingvallanefnd lauk á dögunum og Þráinn kallaði tvo þingmenn Sjálfstæðisflokksins „fasistabeljur“ af því að nefndarmenn stóðu ekki einhuga að vali á fólki í nefnd til að fjalla um framtíð Þingvalla.

Að Þingvallanefnd framselji vald sitt á þann veg sem gert er með skipan þessarar nefndar er umdeilanlegt. Lögum samkvæmt ber Þingvallanefnd að fara með málefni þjóðgarðsins. Hún getur ekki falið öðrum að taka stefnumarkandi ákvarðanir um framtíð Þingvalla. Vegna forkastanlegrar framkomu Þráins er nefndin nú óstarfhæf undir formennsku Álfheiðar Ingadóttur.

Ólafur Ragnar Grímsson svarar Jóhönnu Sigurðardóttur fullum hálsi þegar hún krefst þess af honum að settar verði siðareglur um forsetaembættið. Þá vill hann ekki heldur sæta upplýsingaskyldu um samskipti sín við forsætisráðherra eða bréfaskipti sín við Jóhönnu eða aðra sem embættinu gegna. Ólafur Ragnar telur heiður og frelsi forsetaembættisins í húfi.

Í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi sem kemur út fyrir lok maí-mánaðar segi ég meðal annars frá fjölmiðlamálinu og deilunum sem urðu vegna þess. Þar lék Ólafur Ragnar stórt hlutverk áður en yfir lauk. Ég vitna meðal annars í bók Guðjóns Friðrikssonar Sögu af forseta þar sem segir frá því að svo mikil leynd hafi hvílt yfir komu Guðna Ágústssonar, þáverandi landbúnaðarráðherra, í hádegisverð að Bessastöðum 19. júlí 2004 að hann fékk ekki að skrá nafn sitt í gestabókina á Bessastöðum. Hún er því ekki traust heimild um það hverjir ræða við Ólaf Ragnar, jafnvel þótt hann hitti viðkomandi á Bessastöðum. Að leyndarhyggja af þessu tagi sé nauðsynleg til að tryggja forseta Íslands frelsi til að sinna skyldum sínum er næsta langsótt og raunar stórundarlegt þegar að er gáð.