5.5.2011

Fimmtudagur 05. 05. 11.

Í gær ræddi ég við Friðþór Eydal, sem var blaðafulltrúi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli en er nú starfsamaður ISAVIA, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um varnarliðið í tilefni af 60 ára afmæli varnarsamningsins sem er í dag. Friðþór er manna fróðastur um sögu varnarsamstarfsins eins og má sjá hér.

Í tilefni af afmæli varnarsamningsins höfðum við í stjórn Varðbergs boðað til hádegisverðarfundar í dag, þar sem James J. Townsend, aðstoðarráðherra varnarmála frá Bandaríkjunum, ætlaði að ræða um varnarsamstarfið í 60 ár. Vegna óveðurs í Washington í gær missti hann af vél Icelandair í Boston og urðum við að aflýsa fundinum. Í tilefni af tímamótunum var rætt við mig í Fréttablaðinu eins og lesa má hér.

Í morgun fór ég og leiddi qi gong æfingu í Sjálandsskóla í Garðabæ, þar sem einn félagi okkar hratt af stað æfingahópi sem eflist jafnt og þétt. Sannar þetta aðeins hve æfingakerfið höfðar til margra.

Klukkan 18.15 var ég síðan í Rótary-klúbbi Árbæjar og kynnti qi gong fyrir klúbbfélögum.