3.5.2011

Þriðjudagur 03. 05. 11.

Íslensku blöðin voru farin í prentun sunnudagskvöldið 1. maí þegar fréttinn um að Osama bin Laden hefði verið myrtur barst. Þegar þau komu út í dag vakti meiri athygli á forsíðum þeirra að bjarndýr hefði verið verið skotið á Hornströndum en að bin Laden væri fallinn. Kastljósið var einnig helgað því í kvöld hvort réttmætt hefði verið að fella bjarndýrið. Svo draga einhverjir í efa að heimssýn norðurslóðamanna sé önnur en þeirra sem búa á meginlandi Evrópu, þar sem hvorki má selja selafurðir né hvalkjöt.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur varpað fram þeirri kenningu að keppi hvalurinn ekki við manninn við fæðuöflun stundi hann sérstæða matvælaframleiðslu sem styrki rökin fyrir því að hann sé veiddur, ekki síst á tímum hækkandi matvælaverðs og umræðna um fæðuöryggi.

Ég skrapp austur í Fljótshlíð og skynjaði í fyrsta sinn vorkomuna á þessu ári. Á leiðinni sá ég meira að segja lítil lömb spóka sig í túnjaðri við þjóðveginn.