1.5.2011

Sunnudagur 01. 05. 11

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, flutti 1. maí ræðu á Akureyri þar sem hann mælti með aðild að ESB til að skapa stöðugleika. Engu líkara en hann átti sig á því að með þessum boðskap ýtir hann undir sundrungu - ekki aðeins meðal þjóðarinnar heldur einnig innan eigin samtaka. Þótt forystumenn ASÍ séu gengnir í ESB á hið sama ekki við um umbjóðendur þeirra.

ASÍ tekur þátt í Evrópusamtökum verkalýðsfélaga sem hafa lagst gegn tillögum Merkel og Sarkozys um leiðir til að bjarga evrunni. Tillögurnar hafa verið samþykktar þrátt fyrir mótmælin. Fyrir verkalýðssamtök innan ESB boða þær illt að mati verkalýðsleiðtoga þar - engu að síður mælir forseti ASÍ með því að Ísland gangist undir þessar reglur með aðild að ESB.  Ætli forystumenn ASÍ séu hættir að fylgjast með því sem er að gerast innan ESB? Eða er þeim alveg sama?

Um svipað leyti og forseti ASÍ ýtti undir sundurlyndi með tali um ESB-aðild á Akureyri stóð Jóhanna Sigurðardóttir á sviðinu í Iðnó og ýtti undir sundrungu með því að ráðast útgerðarmenn. Ný könnun Viðskiptablaðsins sýnir að stjórnendur fyrirtækja telja sjávarútveginn mikilvægustu atvinnugreinina. Forsætisráðherra telur mestu skipta að vega að þeirri grein í 1. maí ræðu sinni.

Þau Jóhanna og Gylfi eru bæði í Samfylkingunni og telja sig kynna stefnu hennar í ræðum sínum. Ætli vandi þjóðarinnar felist ekki í þessari stefnu frekar en nokkru öðru á stjórnmálasviðinu.