18.5.2011

Miðvikudagur 18. 05. 11.

Nú fara ýmsir hamförum yfir því að gestum hafi verið boðið að sitja í sal Eldborgar í Hörpu þegar húsið var opnað formlega13. maí auk þess sem býsnast er yfir því að gestum hafi verið boðnar veitingar í lengra hléi af tveimur þetta kvöld. Mér þykir þetta skrýtin umræða. Auðvitað varð að opna húsið á formlegan hátt og bjóða til þess gestum eins og ávallt er gert við slík tækifæri. Fráleitt er að láta eins og þessi athöfn hafi einkennst af bruðli.

Á sínum tíma átti ég nokkrum sinnum í orðaskaki við menn innan Sjálfstæðisflokksins þegar ég beitti mér fyrir því að tekin yrði pólitísk ákvörðun um að ríkið kæmi að því að semja við þá sem tækju að sér að reisa húsið. Nú er hið glæsilega hús risið sem sannar á áþreifanlegan hátt að andstæðingar þess urðu einfaldlega undir í málinu. Menn verða að taka þeim ósigri án þess að verða sér til skammar.

Þetta er hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem rifist er um hús. Eftir að Ráðhúsið við Tjörnina og Perlan risu var endalaust hamrað á því að um óráðsíu hefði verið að ræða og átti sá áróður þátt í að Sjálfstæðisflokkurinn missti meirihluta í borginni árið 1994. Vafalaust hefur einnig verið fundið að  því hvernig staðið þessi hús voru formlega opnuð.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar þótti alltof stór árið 1987 og mikið var skammast yfir því hvernig staðið var að því að opna hana enda skammt til þingkosninga.

Hallgrímskirkja sat einnig undir mikill gagnrýni og þannig mátti áfram telja.

Þegar ég sat í borgarstjórn Reykjavíkur 2002 til 2006 gagnrýndi ég að stórhýsi yrði reist sem höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur. Til að fela kostnað við þá byggingu var margvíslegur blekkingarleikur stundaður.

Af þeim húsum sem ég hef hér nefnt tel ég þau öll standa fyrir sínu nema OR-húsið. Það er til marks um óráðsíu. Notagildi hinna húsanna er ótvírætt.