15.5.2011

Sunnudagur 15. 05. 11.

Glöggur lesandi benti mér á rangfærslu á síðu minni í gær þegar ég sagði að lög hefðu verið samþykkt um að breyta stjórnlagaþingi í stjórnlagaráð þrátt fyrir ógilda kosningu á fólkinu sem situr nú á fundum stjórnlagaráðs. Alþingi hefði alls ekki ákveðið þetta með lögum heldur þingsályktun sem minnihluti þingmanna hefði stutt þegar um hana voru greidd atkvæði.

Þá bar svo við í þessari atkvæðagreiðslu í alþingi að ekki var farið að hefðbundinni reglu við val á mönnum í nefndir og ráð. Reglan er sú að meirihluti og minnihluti eigi fulltrúa í þessum nefndum eða ráðum. Þarna var látið við það sitja að stjórnlagaráð yrði skipað þeim valdir voru í ógildri kosningu.

Lömbum fjölgar jafnt og þétt í Fljótshlíðinni og hafa ærnar mínar nú borið þremur. Ég tók þátt í því í dag að hleypa einni þeirra úr húsi hjá Ásgeiri Tómassyni á Kollabæ. Hann hefur fóðrað hana og hugsað um hana og síðan lambið af kostgæfni í vetur.