7.5.2011

Laugardagur 07. 05. 11.

Efnt var til Öskjuhlíðardags i dag og stofnað til samstarfs Reykjavíkurborgar, Háskólans í Reykjavík og skógræktarmanna um um velferð hlíðarinnar. Vonandi hefst umhyggjan á því að hreinsa draslið úr Öskjuhlíðinni við hlið Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýrinni. Sóðaskapurinn er öllum samstarfsaðilum um hlíðina til skammar.

Á dögunum sagði ég hér á síðunni að orð Álfheiðar Ingadóttur um að þingflokkur vinstri-grænna styddi „framlagningu“ frumvarps Jóhönnu Sigurðardóttur um breytingar á stjórnarráðslögunum  jafngilti andstöðu við efni frumvarpsins. Samfylkingarmenn á Eyjunni töldu þetta þverstæðu. Svo er ekki því að á alþingi er eitt samþykkja að mál sé lagt fram og annað að samþykkja efni þess.

Eyjumenn ættu að rýna í laugardagsviðtal Björns Inga Hrafnssonar við Ögmund Jónasson, innanrikisráðherra, á Eyjunni í dag. Þar segir Ögmundur:

„Þessar hugmyndir stjórnarráðsfrumvarpsins eru byggðar á skýrslu sem upprunalega var unnin af Gunnari Helga Kristinssyni, prófesssor við Háskóla Íslands. Þegar skýrsla hans kom fyrst fram síðastliðið vor gagnrýndi ég hana harðlega opinberlega í blaðaskrifum og hef einnig gert það inn á við. Fannst mér gæta of mikillar píramídahugsunar og miðstýring væri of mikil fyrir minn smekk. En síðan hafa þessar hugmyndir verið að þróast í rétta átt og er það vel.“

Ögmundur segist hafa samþykkt framlagningu frumvarpsins með fyrirvara í ríkisstjórn og telur að það eigi eftir að „þroskast“, þegar Björn Ingi spyr um stuðning hans við það. Þá telur hann að sú gagnrýni eigi við rök að styðjast að frumvarpið „stórauki völd og áhrif forsætisráðherrans“.

Átti þeir Eyjumenn sig ekki á að í þessari afstöðu Ögmundar felst andstaða við efni frumvarps Jóhönnu og þar með ekki stuðningur við það, skilja þeir ekki hvernig kaupin gerast á alþingi.

Hitt er síðan með miklum ólíkindum ef þingmenn sem telja framkvæmdavaldið of sterkt gagnvart löggjafarvaldinu ætla að kyngja því að ákvörðun um fjölda og verkaskiptingu ráðuneyta sé tekin úr höndum alþingis og færð til forsætisráðherra.