19.5.2011

Fimmtudagur 19. 05. 11.

Allan daginn sat ég á fundi ATA í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Fyrri hluta dags fluttu sérfræðingar bandalagsins erindi um stöðu þess og verkefni á líðandi stundu en seinni hlutann ræddum við í fulltrúaráði ATA (Atlantic Treaty Association) málefni félagsins, lagabreytingar og annað.

NATO hefur tekið stakkaskiptum á þeim 20 árum sem liðin eru frá lyktum kalda stríðsins. Verkefni í nafni bandalagsins eru nú í Júgóslavíu fyrrverandi, Afganistan, undan ströndum Sómalíu og í Líbýu. Alls staðar er beitt valdi til að ná markmiðum sem NATO-ríkin hafa sett sér í samstarfi við ríki utan bandalagsins en þetta samstarf tekur á sig ólíka mynd eftir því hvert verkefnið er.

Á tíma kalda stríðsins hefði valdbeiting af þessu tagi undir merkjum NATO verið óhugsandi. Þá lögðu menn áherslu á herstjórnarstefnu sem miðaði að því að viðbúnaðurinn væri svo mikill og ógnvekjandi að aldrei þyrfti að beita honum af því að enginn þyrði að leggja til atlögu við hann.