Föstudagur 27.6.1997
Að morgni föstudagsins 27. júní tók ég þátt í hringborðsumræðum í sal borgarstjórnar Reykjavíkur, þar sem rætt var um stöðu tungumála í Færeyjum, Íslandi og Grænlandi. Kom til orðaskipta milli mín og dansks þingmanns, sem taldi það til marks um lítinn áhuga Íslendinga á norrænum tungum, að hann þyrfti að tala ensku við leigubílstjóra, barþjóna og hótelstarfsmenn. Ég sagði þessa niðurstöðu ekki reista á mjög vísindalegum grunni og las úr grein, sem ég hafði klippt úr dönsku blaði, þar sem fram kemur að nútímadanska sé borin fram með þeim hætti, að enginn utan Danmerkur skilji hana. Svíar og Norðmenn kysu meira að segja að ræða við Dani á ensku. Dró ég þá ályktun að vandi Dana væri frekar heimatilbúinn en unnt væri að kenna íslenska skólakerfinu um hann.