28.9.2011

Nú skulum við taka lögregluna!

Fyrsta óhæfuverk Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar eftir að þau mynduðu minnihlutastjórn 1. febrúar 2009 var að gjörbylta stjórnkerfi Seðlabanka Íslands. Reka þrjá seðlabankastjóra og ráða Norðmann til að gegna embætti bankastjóra á meðan búið var þannig um hnúta að Már Guðmundsson gæti losað sig frá BIS-bankanum í Sviss og tekið við embætti seðlabankastjóra. Flutti Steingrímur J. sérstaka breytingu á lögum um kjaradóm til að tryggja mætti Má sérkjör. Það lenti síðan allt í handaskolum af því að Jóhanna treysti sér ekki til að standa við það sem Már taldi sér hafa verið lofað.

Annað óhæfuverk Jóhönnu var að ráðast á stjórnarskrána. Henni átti að breyta með ofbeldi fyrir kosningar 25. apríl 2009. Þau áform runnu út í sandinn vegna þess hve illa var á málinu haldið á alþingi og frekja Jóhönnu mikil. Síðan skyldi kosið stjórnlagaþing. Það lenti í handaskolum af því að ríkisstjórnin stóð ekki rétt að undirbúningi og framkvæmd kosninga til þingsins. Mörg hundruð milljónum króna hefur hins vegar verið varið til að láta draum Jóhönnu um nýja stjórnarskrá rætast. Hann verður kynntur sem skýrsla á alþingi nú í október.

Þriðja óhæfuverk Jóhönnu var að ráðast á Stjórnarráð Íslands. Hún fékk þar til liðs við sig fólk sem taldi skynsamlegra að líta til reglna erlendis en 40 ára farsæla reynslu af íslenskum stjórnarráðslögum. Snúið var út úr skýrslu rannsóknarnefndar alþingis til að réttlæta aðförina að stjórnarráðinu. Að lokum lenti málið í handaskolum og Jóhanna varð að kaupa Þráin Bertelsson til fylgis við frumvarpið með því að setja hlustunarbúnað í fundarherbergi ríkisstjórnarinnar! Spurning er hvort Þráinn heimti að hlera fundi Jóhönnu og Steingríms J.

Fjórða óhæfuverk þeirra Jóhönnu og Steingríms J. var að beita sér fyrir því að stefna Geir H. Haarde fyrir landsdóm. Jóhanna vill þvo hendur sínar af því óhæfuverki sem þó hefði aldrei orðið nema vegna þess að hún lét málið hafa sinn óvandaða gang. Steingrímur J. sagðist hafa greitt atkvæði með ákærunni á hendur Geir með „sorg í hjarta“, tvöfeldnin leyndi sér ekki þar frekar en endranær.

Fimmta óhæfuverk Jóhönnu og Steingríms J. er aðförin að lögreglunni. Mánuðum saman er látið undir höfuð leggjast að semja við lögreglumenn. Loks er kjaradeilunni vísað í gerðardóm sem tekur ekkert mið af breytingu á störfum og starfsumhverfi lögreglumanna. Uppbrot verður innan lögreglunnar, sveitir sem þjálfaðar hafa verið til að takast á við óeirðaseggi leysast upp. Sveitirnar hafa einmitt verið helsti þyrnir í augum samfylkingamanna og vinstri grænna á alþingi. Alltaf þegar ég vildi styrkja þessa innviði lögreglunnar risu þingmenn þessara flokka upp á þingi með getsakir og skammir á vörunum.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri-grænna, stóð við lögreglustöðina á Hverfisgötu síðla árs 2008 og hrópaði hvatningarorð til þeirra aðgerðarsinna sem gerðu tilraun til að brjótast inn í stöðina. Þegar ráðist var að alþingishúsinu stóð Álfheiður í glugga þess og ræddi við aðgerðarsinna í farsíma. Innan dyra í þinghúsinu býsnuðust þingmenn vinstri grænna yfir því að lögreglumenn fengju þar skjól og aðstöðu þegar ráðist var á húsið af mestri heift. Nú standa Steingrímur J. og Ögmundur þannig að verki vegna kjaradeilu lögreglumanna að grafið er undan styrk lögreglunnar til að takast á við óeirðaseggi.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur kallað slíka reiði og hneykslan yfir ríkisstjórn og alþingi að hún þorir ekki að standa að þingsetningu í samræmi við hefð heldur reynir með ósannindum og aðstoð Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta alþingis, að skjóta sér undan þeirri staðreynd að þingsetning er að morgni laugardags af ótta við mótmæli.

Þegar lögreglumenn leitast við að styrkja stöðu sína gagnvart viðsemjanda sínum, fjármálaráðherra, geysist ríkisendurskoðandi fram á völlinn og vegur að embætti ríkislögreglustjóra og sakar um lögbrot í fréttum ljósvakamiðlanna. Ríkisendurskoðandi hefur hvorki umboð né stöðu til að fella dóma um hvort lög séu brotin eða ekki. Mat á því hvort lögregla hafi brotið lög við kaup á varnarbúnaði á óeirðatímum er ekki á verksviði ríkisendurskoðanda. Hann getur upplýst um hvernig staðið var að kaupunum en ekki dæmt um hvort lög hafi verið brotin, geri hann það fer hann út fyrir umboð sitt og ástæða er til að kanna hvort hann hafi ekki þar með framið lögbrot.

Björn Valur Gíslason, þingmaður vinstri-grænna og sérstakur talsmaður Steingríms J., fór mikinn í fréttatíma RÚV vegna upplýsinganna frá ríkisendurskoðanda um innkaup á vegum lögreglunnar. Mátti hann vart mæla af hneykslan og er þá mikið sagt. Hann vill kalla menn fyrir fjárlaganefnd vegna þessa máls. Verður ríkisendurskoðandi kallaður fyrir forsætisnefnd alþingis vegna orða sinna um lögbrot ríkislögreglustjóra?

Mál lögreglunnar eru lent í handaskolum fyrir tilstuðlan ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar. Afleiðingar þess verða aukið öryggisleysi í þjóðfélaginu og hætta á enn meiri upplausn en orðin er.

Á meðan þingmenn Samfylkingarinnar grípa ekki fram fyrir hendur Jóhönnu Sigurðardóttur og stöðva offors hennar og sífellt meiri reiði eða hreint ofstæki í garð þeirra sem andmæla henni heldur þessi hrakfallasaga áfram. Með óhæfuverkunum er vegið að innviðum stjórnkerfisins og þar með samfélagsins.