4.9.2011

Sunnudagur 04. 09. 11

Veðrið var óvenjulega milt og gott í Fljótshlíðinni í dag. Á leiðinni að austan undir kvöldmat benti umferðin til þess að Herjólfur hefði nýlega komið frá Vestmannaeyjum. Við það verður allt líflegra á vegunum.

Ólafur Ragnar Grímsson var stóryrtur í RÚV í dag gegn þeim stóðu að Icesave-samningunum, fyrrverandi samflokksmönnum sínum og samstarfsmönnum: Svavari Gestssyni og Steingrími J. Sigfússyni. Hann taldi það hafa verið hina mestu fásinnu að semja um Icesave eins og þeir gerðu. Þá réðst hann einnig að Hollendingum og Bretum og hvatti ESB til að efna til rannsóknar á því hvernig staðið hefði á hörkunni sem Íslendingum hefði verið sýnt í málinu.

Mér þótti eins og Ólafur Ragnar beitti þarna smjörklípuaðferðinni, hann vildi draga athygli frá ummælum sínum um söluna á Grímsstöðum á Fjöllum til kínverska auðkýfingsins. Þau einkenndust af fljótræði og dómgreinarleysi eins og ég vakti máls á hér.