3.9.2011

Laugardagur 03. 09. 11

Það verður skýrara en áður að á Pressunni taka menn ekki á heilum sér vegna þess að vefsíðan Evrópuvaktin sem við Styrmir Gunnarsson skrifum hafi fengið styrk frá alþingi til að stuðla að upplýstri umræðu um Evrópusambandið og íslensk málefni í því sanhengi.

Í gær laug Pressan því að Evrópusambandið stæði á bakvið þessa styrki alþingis. Þessi ósannindi voru liður í viðleitni Pressunar til að koma þeim stimpli á okkur að við séum hræsnarar. Við berðumst gegn ESB-aðild en þægjum styrki frá ESB.

Pressan birtir 3. sept mynd af okkur Styrmi með frétt sem ætlað að gefa til kynna að eitthvað sé undarlegt við styrkveitingu til okkar úr því að stofnanir Háskóla Íslands fékk ekki styrk. Af fréttinni og myndum með henni mætti helst ráða við Styrmir hefðum úthlutað styrkjunum. Það gerðu hins vegar fyrrverandi rektorar íslenskra háskóla.

Eigi þessi frétt Pressunnar að jafngilda leiðréttingu á ósannindunum um uppruna úthlutunarfjárins og styrksins til Evrópuvaktarinnar er hún gjörsamlega misheppnuð. Það er ekki mikill metnaður í vefmiðli á borð við Pressuna sem fer með ósannindi um fólk en hefur ekki þrek til að leiðrétta þau og hafa það sem sannara reynist.

Ég hélt að Björn Ingi Hrafnsson, eigandi Pressunnar og Eyjunnar , hefði meiri metnað en að starfsmenn hans leiðrétti ekki þegar þeim verða á á mistök eða fara beinlínis með rangt mál.