28.9.2011

Miðvikudagur 28. 09. 11

Í dag ritaði ég pistil þar sem ég lýsi þeirri skoðun að ómaklega sé vegið að lögreglunni í launamálum og vegna kaupa á búnaði á óeirðabúnaði á neyðarstundu auk þess sem ríkisendurskoðandi hafi farið út fyrir starfssvið sitt þegar hann lýsti yfir að yfirstjórn lögreglunnar hefði framið lögbrot.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra er í Mexíkó þegar rætt er við hann um málefni lögreglunnar á þessari örlagastundu í málefnum hennar. Ráðherrann er þar til að deila við menn um einkaframkvæmdir í vegagerð. Með því að stofna innanríkisráðuneyti voru of margir ólíkir málaflokkar settir undir einn ráðherra. Þetta dregur úr skilvirkni við stjórn mála innan stjórnarráðsins og leiðir að lokum aðeins til lakari stjórnarhátta.

Í sjónvarpsfréttum klukkan 22.00 var sagt frá hugmyndum um einkaframkvæmd til að efla þyrlukost landhelgisgæslunnar til frambúðar. Þar kom fram að ekki þýddi að ræða þessa leið við Ögmund Jónasson, hann væri á móti henni af hugmyndafræðilegri ástæðu.

Hin hugmyndafræðilega andstaða vinstri-grænna við öll nútímaleg viðhorf til opinberra stjórnahátta veldur vandræðum á sífellt fleiri sviðum.