17.9.2011

Laugardagur 17. 09. 11

Við Fljótshlíðingar smöluðum í dag norður af Þríhyrningi og í kringum hann. Veðrið var einstaklega gott. Um tíma héldum við að það yrði of heitt til að unnt yrði að þoka safninu áfram. Mér sýnist fénu sem kemur af fjalli fækka ár frá ári.  Haldið var af stað um 07.30 og réttum tólf tímum síðar þvoði ég af mér ferðarykið eða öskuna hér heima. Setan á hestinum var löng og dálítið ströng, sérstaklega þar sem ég hafði ekki farið á hestbak í nokkur misseri þar til í gær þegar við ferjuðum hestana upp að Reynifelli fyrir vestan Þríhyrning. Allt gekk þetta að óskum.

Undanfarna tvo daga hef ég undrast boðskapinn sem á að flytja í nýrri heimildarmynd um Halldór Kiljan Laxness og sagt var frá í Kastljósi að því er virðist öðrum þræði til að ala enn á ósannindum um samskipti föður míns og Laxness, að minnsta kosti þegar myndin er kynnt fyrir Íslendingum. Hér kveður Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson sér hljóðs um málið.

Eitt er að fjölskylda Halldórs Laxness ákveði að gera heimildarmynd um hann fyrir útlendinga í von um að ýta undir sölu á bókum hans á alþjóðamarkaði. Ástæðulaust er að agnúast út í það svo framarlega sem ekki er ráðist ómaklega að öðrum til að upphefja skáldið, hvað þá ef það er gert á fölskum forsendum. Annað er að Kastljós hins óhlutdræga RÚV skuli leggja lykkju á leið sína til að segja frá hinni ófullgerðu heimildarmynd og leggja þar mest upp úr ósannindum um að Bjarni Benediktsson hafi með aðstoð bandarískra yfirvalda getað bundið enda á áhuga Bandaríkjamanna á því að kaupa bækur Laxness.