7.9.2011

Miðvikudagur 07. 09. 11

Í dag ræddi ég við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Hann skefur ekki utan af því þegar hann ræðir um ríkisstjórnina og samstarfshætti stjórnarflokkanna. Hann telur að Samfylkingunni sé sama þótt allt sé hér á hinn versta veg í efnahagsmálum, það styrki aðeins málstað hennar um að þjóðinni vegni betur innan ESB. Vinstri-grænir líti hins vegar á það sem pólitískt markmið í sjálfu sér að allir hafi það jafn slæmt. Hann sagði ríksstjórnina hina verstu í Íslandssögunni.

Atlaga stjórnarmeirihlutans að stjórnarráðinu heldur áfram. Þingmenn hans samþykkja að afsala þinginu valdi til að ákveða fjölda ráðuneyta og skiptingu verkefna milli þeirra. Þá er ætlunin að 23 pólitískir aðstoðarmenn fylgi ráðherrum samkvæmt frumvarpinu. Ég hef grun að öllum tölum um kostnað við að framkvæma þessar breytingar sé vísvitandi haldið leyndum. Eitt er víst að þarna eru ekki gerðar neinar sparnaðarkröfur á sama tíma og saumað er að öllum þjónustustofnunum sem snúa að almenningi.

Áður en níu daga þingið í september hófst var ákveðið að aðeins skyldi halda einn fund í hverri þingnefnd á meðan þingið sæti. Eftir að stjórnarráðsfrumvarpið féll í allsherjarnefnd vegna andstöðu Þráins Bertelssonar var ákveðið að boða annan fund í nefndinni til að drusla málinu í gegn, enda óskamál Jóhönnu. Hvaða verði keypti hún afgreiðslu málsins? Að fundir ríkisstjórnarinnar yrðu hljóðritaðir. Spyrja má hvort þeim ráðherrum sé sjálfrátt sem samþykkja þessa vitleysu. Þegar Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sem átti samleið með Þráni í samningunum við Jóhönnu er spurður hvort þessi krafa þeirra um hljóðritun þýði ekki að óformlegir ríkisstjórnarfundir taki við af hinum formlegu, hljóðrituðu fundum, svarar hann: Þetta segja þeir alltaf! Auðvitað segja menn þetta alltaf af því að svona verður það og spurning hvort ekki verði einnig hætt að skrá afgreiðslur ríkisstjórnarinnar jafnskipulega og gert hefur verið.

Þessi meðferð þingmeirihlutans á stjórnarráðinu er til skammar. Það er fráleitt að kenna þessa eyðileggingu á góðum og skipulegum stjórnarháttum við nauðsynlegar umbætur vegna bankahrunsins. Það er í ætt við þau pólitísku ósannindi að innleiðing skattkerfis í anda gamla Alþýðubandalagsins hafi verið nauðsynleg til að sigrast á erfiðleikum bankahrunsins eða óhjákvæmilegt hafi verið að draga Geir H. Haarde fyrir landsdóm. Um það hneyksli fjalla ég í nýjum pistli hér á síðunni.