10.9.2011

Laugardagur 10. 09. 11

Pétursborg er jafnvel mikilfenglegri en ég hafði gert mér í hugarlund, stafar það meðal annars af því að háhýsi eru bönnuð í borginni. Ekkert hús má vera hærra en Vetrarhöllin sem stendur við Nevu og var reist á sautjándu. Höllina má rekja aftur til Péturs mikla, sem hóf að reisa Pétursborg árið 1703, þótt Katrín II mikla keisaraynja í Rússlandi hafi gert Vetrarhöllina að rússneskri keisarahöll árið 1762.

Ég fór aldrei hingað til St. Pétursborgar á Sovétímanum. Að heimsækja borgina núna og hlýða á lýsingar af sögu hennar sýnir að bylting Leníns í henni árið 1917 og afleiðingar hennar til ársins 1991 var ekki annað hörmuleg tilraun sem misheppnaðist. Hún eyðilagði þó ekki borgina frekar en 900 daga umsátur Hitlers um hana í síðari heimsstyrjöldinni. Á aðalgötunni er skilti sem minnir á umsátur Hitlers, þar segir að heyri borgarbúar í sprengvélum eigi þeir að fara yfir á hinn helming götunnar, þar sé minni hætta á að skotið verði á þá vegna þess að hús veiti þeim skjól.