1.9.2011

Fimmtudagur 01. 09. 11

Ég lýsti þeirri skoðun í leiðara á Evrópuvaktinni í dag að það hefði orðið meiri skaði af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðadóttur en bankahruninu. Með því er ég síður en svo að gera lítið úr tjóninu vegna hrunsins. Ákvarðanir sem ríkisstjórn og alþingi tóku fyrstu dagana í október 2008 skiptu sköpum um að skotið var grundvelli undir uppbyggingu eftir hrunið. Vandinn var fjárhagslegur og viðráðanlegur á þeim grunni sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde lagði. Komið var í veg fyrir að Íslendingar sætu uppi með hina rosalegu skuldabagga bankanna.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur tekið svo margar rangar ákvarðanir að ég hef ekki tölu á þeim. Dómgreindarleysið sem einkenndi framgöngu hennar í Icesave-málinu allt frá því Steingrímur J. skipaði flokksbróður sinn Svavar Gestsson formann viðræðunefndarinnar við Breta og Hollendinga er skýrt dæmi um illa ígrundað fljótræðu sem hefði reynst þjóðinni dýrkeypt ef Svavars-samningurinn hefði náð fram að ganga.

Sem betur fór tókst að skjóta þjóðinni undan Icesave-samningunum. Það hefur hins vegar ekki tekist að bjarga þjóðinni undan öllum óhæfuverkum ríkisstjórnarinnar. Andstaðan við hana hefur ekki verið nægilega markviss á alþingi og með ólíkindum er hve þingmenn annarra flokka en stjórnarflokkanna eru fúsir til að leggja ríkisstjórninni lið þegar líf hennar er í hættu. Er það vegna þess að þingmenn þora ekki að horfast í augu við kjósendur í kosningum?