6.9.2011

Þriðjudagur 06. 09. 11

Í The New York Times í dag er löng grein um að annað hvort brotni evru-svæðið eða breytist í Bandaríki Evrópu. Það sé ekki unnt að búa við sameiginlega mynt í 17 ríkjum og ætla að fylgja sameiginlegri peningastefnu án þess að hafa einnig stjórn á fjármálastefnunni, það er ráða sköttum og útgjöldum ríkisins. Blaðamennirnir segja að Bandaríki Evrópu séu markmið ráðamanna ESB í Brussel og margra forystumanna í ESB-ríkjunum. Af ótta við almenningsálitið þori menn hins vegar ekki að ræða þetta markmið opinberlega.

Dálkahöfundurinn Charlemagne í The Economist fjallar um þetta í síðasta hefti vikuritsins. Hann minnir á aðferð Jeans Monnets „föður ESB“, baktjaldamakkið á milli embættismanna sem skrifuðu minnisblöð og tillögur fyrir stjórnmálamenn og gripu tækifærið á örlagastundum til að stíga nýtt skref innan ramma Evrópuverkefnisins, það er verkefnið að koma á fót Bandaríkjum Evrópu. Charlemagne telur að ekki verði lengra komist á braut Monnets. Nú verði baktjaldamakkinu að ljúka og leggja verði spilin á borðið og gefa almenningi færi á að segja álit sitt.

Skuldakreppan á evru-svæðinu snertir buddu skattgreiðenda og þeir eru ekki allir sáttir við að greiða skuldir óreiðuríkja frekar en Íslendingar vildu greiða Icesave-skuld einkabanka. Stjórnmálamenn sem ganga á hlut umbjóðenda sinna ná ekki endurkjöri. Einmitt þess vegna þora þeir ekki að leggja tillögu um Bandaríki Evrópu fram án umbúðanna sem notaðar eru til að fela hið raunverulega markmið „skref-fyrir-skref“ aðferðinni sem þau tala um Angela Merkel, Wolfgang Schäuble og Nicolas Sarkozy. Nú standa þau hins vegar fyrir framan vegg sem ekki verður brotinn nema með aðstoð kjósenda.