30.9.2011

Föstudagur 30. 09. 11

KONTRA sjónvarpsrásin í Grikklandi tók viðtal við mig í gegnum Skype í kvöld og ræddi um bankahrunið hér á landi og vildi samanburð við Grikkland. Stóri munurinn er auðvitað sá að Íslendingar ákváðu að lánardrottnar bankanna  sætu uppi með áhættu sína en skattgreiðendur tækju ekki að sér að „greiða skuldir óreiðumanna“ eins og staðan er í Grikklandi auk þess sem gríska ríkið er stórskuldugt en hið íslenska var nær skuldlaust. Hinn mikli munurinn felst í því að Íslendingar ráða yfir eigin mynt og geta lækkað gengi. Grikkir eru hins vegar með evruna og eru þrautpíndir með lækkun launa og hækkun skatta til að bjarga henni. Þeir hafa verið sviptir fjárræði eins og sést nú þegar reynt er að verjast því að fulltrúar þríeykisins, ESB, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Seðlabanka Evrópu fái að komast inn í grískar stjórnarbyggingar í Aþenu.

Ástæðan fyrir því að haft var samband við mig er meðal annars bók mín Rosabaugur yfir Íslandi og gagnrýni á hvernig fjölmiðlar gengu fram fyrir hrunið hér á landi, það er Baugsmiðlarnir. Nafn grísku sjónvarpsrásinnar gefur til kynna að henni sé haldið úti til að vega að ráðandi öflum í Grikklandi. Þykir þeim sem að stöðinni standa greinilega merkilegt að ráðherra á Íslandi hafi lent í útistöðum við fjármálafursta á þann veg sem gerðist hér þegar Baugsmenn kusu að gera mig að einum af höfuðandstæðingum sínum.

Í aðdraganda sjónvarpssamtalsins skýrði ég hinum gríska viðmælanda mínum meðal annars frá hinni furðulegu staðreynd að mér hefði verið stefnt fyrir dóm vegna ritvillu sem ég hefði leiðrétt með afsökun. Málaferli af slíku tilefni eru þess eðlis að þeim ætti ekki að ljúka fyrr en í mannréttindadómstólnum í Strassborg til að draga rækilega athygli sem flestra að því hve langt fésýslumenn og lögfræðingar þeirra eru reiðubúnir að ganga í krafti fjármagnsins.

Í leiðara Fréttablaðsins í dag segir Ólafur Þ. Stephensen að það sé „fullkomlega galið“ hjá mér að tengja athugasemdir ríkisendurskoðanda við innkaup fyrir lögregluna við launadeilu lögreglumanna.  Athugasemdir ríkisendurskoðanda kunna að eiga rétt á sér. Ég gagnrýni hann ekki fyrir skýrslu hans enda hef ég ekki kynnt mér hana. Hins vegar er ámælisvert að hann opinberi niðurstöðu sína þegar kemur sér verst fyrir lögreglumenn í kjaradeilu þeirra auk þess að hann fari út fyrir umboð sitt með því lýsa ríkislögreglustjóra sem lögbrjóti.