21.9.2011

Miðvikudagur 21. 09. 11

Í dag ræddi ég við Davíð Þorláksson, nýkjörinn formann Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS), í þætti mínum á ÍNN. Hann má sjá klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Davíð lýsir stefnu og starfi SUS sem eru fjölmennustu stjórnmálasamtök ungs fólks í landinu. Í samtali okkar kemur fram að í raun sé tæplega unnt að tala um ungliðasamtök í öðrum stjórnmálaflokkum.

Axel Jóhann Axelsson skrifar á blogg sitt 21. september:

„Jón Ásgeir, leiðtogi Baugsgengisins, hefur stefnt Birni Bjarnasyni vegna meiðyrða, þar sem sú villa slæddist inn í fyrstu prentun bókar Björns um Baugsmálið fyrsta, að Jón Ásgeir hefði fengið dóm fyrir fjárdrátt, þegar staðreynd málsins er sú að hann var dæmdur fyrir bókhaldsbrot.

Í huga almennings í landinu stendur Jón Ásgeir fyrir ímynd hins eina og sanna útrásargangsters og engin leið að sverta mannorð hans með ritvillum um þau brot sem hann hefur þegar verið dæmdur fyrir, enda reikna allir með að hann muni fá mun fleiri og þyngri dóma vegna athafna sinna í aðdraganda banka- og efnahagshrunsins, sem Rannsóknarnefnd Alþingis sagði eigendur og stjórnendur bankanna fyrst og fremst ábyrga fyrir.

Þessi kæra Jóns Ásgeirs uppfyllir hins vegar hluta af þeim spádómi Evu Joly að útrásargengin myndu beita öllum brögðum til að leiða athyglina frá gerðum sínum og ráðast með öllum tiltækum ráðum að þeim sem um þá fjölluðu og eins þá rannsakendur sem með mál þeirra fara og munu væntanlega sækja þá til saka fyrir dómstólum. Einnig sagði Eva fyrir um það, að allir helstu og dýrustu lögfræðingar landsins og jafnvel þó víðar væri leitað, yrðu notaðir af útrásargengjunum í baráttunni gegn réttvísinni. Sú spá hefur einnig ræst.

Kæran mun ekki skaða Björn Bjarnason, en sýnir hins vegar enn og aftur hvern mann Jón Ásgeir hefur að geyma.“