2.9.2011

Föstudagur 02. 09. 11


Vefsíða, Evrópuvaktin, sem við Styrmir Gunnarsson höfum haldið úti síðan í apríl 2010 fékk styrk nú í vikunni frá alþingi ásamt Já Íslandi og Heimssýn.  Á hverjum degi frá upphafi síðunnar hafa þar birst nýjar fréttir tengdar ESB-málefnum,  Þá bregður svo við að nafnlausir menn á vefsíðunni Pressunni auk Egils Helgasonar á Eyjunni taka til við að agnúast út í styrkveitinguna.

Á Pressunni er beinlínis farið með rangt mál til að höfundur geti klínt því á okkur Styrmi að við séum hræsnarar. Því er einfaldlega logið að styrkurinn sé veittur af Evrópusambandinu. Egill skrifar af sínu alkunna yfirlæti og gefur til kynna að ekki geti orðið upplýst umræðu um ESB hér á landi úr því að við fengum þennan styrk. Satt að segja finnst mér hvoru tveggja lykta af öfund - að minnsta kosti er það með öllu ómálefnalegt. Hér mál lesa það sem ég hafði um málið að segja á Evrópuvaktinni.

Fyrir utan hin dæmalausu ósannindi á Pressunni, sem hinir ólíklegustu menn fagna ef marka má fésbókarviðbrögð, er því hampað þar að ég sé einhver óvildarmaður Evrópusambandsins. Þetta er alrangt. Ég er hlyntur Evrópusambandinu og tel það á margan hátt hafa orðið til góðs. Ég barðist fyrir EES-samningnum við sambandið og hef varið Schengensamstarfið. Ég hef einnig lagt mat á framtíð ESB án þess að leggja til þess á nokkurn hátt eins og hér má sjá.

Af minni hálfu er ekkert vandamál að eiga góð samskipti við ESB og þiggja þaðan styrki lægju þeir á lausu og væri þeim úthlutað með skýrum málefnalegum rökum á grundvelli opinberra reglna.

Ég er á hinn bóginn eindregið andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu, í henni felist afsal meiri hagsmuna fyrir minni. Þeir sem lesa skrif mín um aðildarviðræðurnar við ESB fara ekki í grafgötur um skoðanir mínar. Þær mundu ekki breytast gerðist hið óvænta að ESB vildi leggja starfi mínu lið á einhvern hátt. Ég tel engar líkur á að það gerist og ítreka hneykslan mína á skrifum Pressunnar um styrkina frá alþingi.