20.9.2011

Þriðjudagur 20. 09. 11

 

Í umræðum um þingsályktunartillögu frá ríkisstjórninni um lausn landhelgisdeilunnar við Breta 9. mars 1961 sagði dómsmálaráðherra í ræðustól þingsins:  „Ég þarf að leiðrétta hér nokkrar prentvillur.“  Þingmaður kallar fram í: „Jafnvel prentvillupúkinn er á móti ykkur!“ Dómsmálaráðherra: „Eins og fleiri púkar!“

Nú eru rúmir þrír mánuðir síðan ég glímdi við villupúkann í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi og birti opinbera yfirlýsingu með afsökun til að afmá orðið „fjárdrátt“ og setja í staðinn „meiri háttar bókhaldsbrot“ í lýsingu á því fyrir hvað Jón Ásgeir Jóhannesson hlaut skilorðsbundinn þriggja mánaða fangelsisdóm í Baugsmálinu.

Þrátt fyrir yfirlýsingu mína og leiðréttingu sem hlaut mikla kynningu og rataði jafnframt inn í 2. prentun bókarinnar hótaði Jón Ásgeir mér strax með meiðyrðamáli og nokkru síðar sagði Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs, að stefna hefði verið samin og hún yrði birt mér eftir réttarhlé. Ég fékk hana afhenta í dag.

Eins og rakið er í Rosabaugi töldu Baugsmenn mig vanhæfan sem ráðherra, þeir vildu að ég yrði rekinn úr embætti, þeir beittu sér gegn mér í prófkjöri innan Sjálfstæðisflokksins, þeir hvöttu kjósendur til að strika yfir nafn mitt á kjördag. Það hefði verið stílbrot ef þeir hefðu látið hjá líða að stefna mér fyrir villu sem hefur þegar verið leiðrétt með afsökun.

Fyrir 3. prentun bókarinnar skrifa ég eftirmála um viðbrögðin við henni. Þau sýna að lengi lifir í gömlum glæðum. Er ástæða til að velta fyrir sér hvort svo sé aðeins þegar skrifað er á opinberum vettvangi um Baugsmenn eða einnig þegar kemur að íslensku viðskiptalífi. Þar gerist því miður allt á bakvið tjöldin um þessar mundir.