8.9.2011

Fimmtudagur 08. 09. 11

Stundum fer mikil hneykslunarbylgja um allan álitsgjafaheim Bandaríkjanna og bylgjuhæðin verður oft svo mikil að flæðir um heim allan. Þetta gerðist til dæmis þegar Dan Quayle, varaforsetaefni repúblíkana í Bandaríkjunum, reyndist árið 1992 ekki kunna að rita fleirtöluna af orðinu potato. Hefur þetta fylgt honum allar götur síðan. Þá gera spyrjendur sér oft leik að því að spyrja næsta óreynt fólk að því hver sé leiðtogi hins eða þessa ríkisins.

Gerald R. Ford, forseti Bandaríkjanna, tók árið 1976 þátt í kappræðum við Jimmy Carter, forsetaefni demókrata, mánuði fyrir forsetakosningar. Ford svaraði spurningu frá Max Frankel, blaðamanni The New York Times, og sagði: „Það eru engin sovésk yfirráð í Austur-Evrópu." Hvað sem síðar varð í álfunni voru ummælin fráleit á þeim tíma sem þau féllu. Bandarískir fjölmiðlar endurbirtu þessa setningu Fords hvað eftir annað, dögum saman. Þótt almenningur hefði í fyrstu talið Ford sigurvegara kappræðnanna snerist afstaðan brátt algjörlega honum í óhag.

Hér er þetta rifjað upp til að minna á hinn almenna doða og gagnrýnisleysi sem setur almennt svip á íslenska fjölmiðlun og þó sérstaklega þá álitsgjafa sem gaspra mest og hæst.

Annar stjórnarflokkurinn, vinstri-grænir, ályktar um að opinber rannsókn skuli fara fram á embættisfærslu utanríkisráðherra vegna aðildar Íslands að hernaðarátökum á vegum NATO í Líbíu. Forsætisráðherra tekur upp þykkjuna fyrir utanríkisráðherrann, flokksbróður sinn, og segir hann hafa farið í einu og öllu eftir ályktun alþingis um hernaðinn. Fréttamaður RÚV hlustar á þetta og RÚV sendir þetta út eins og ekkert hafi í skorist, þótt alþingi hafi ekki samþykkt neina ályktun um málið. Það er ekki fyrr en eftir að Morgunblaðið hefur í leiðara hneykslast á ræfildómi fréttastofu RÚV í málinu að reynt er að bera í bætifláka fyrir hann með vesældarlegri frétt. Hvernig halda menn að fjölmiðlar í Bandaríkjunum hefðu tekið á málum ef Barack Obama hefði sýnt sömu vanþekkingu í stórmáli innan eigin ríkisstjórnar og Jóhanna Sigurðardóttir gerði? Hvað halda menn að Obama hefði gert? Jóhanna hefur að sjálfsögðu ekki tjáð sig um málið í fjölmiðlum. Greinilega hefur verið ákveðið að þegja um það eins og mannsmorð á stjórnarheimilinu.

Viðtal mitt við Sigmund Davíð Gunnlaugsson á ÍNN er komið inn á netið og það má sjá hér.