19.9.2011

Mánudagur 19. 09. 11

Öflugasta atvinnusköpun ríkisstjórnarinnar felst í því að opna glufu í lögum til að fjölga ráðherrum og aðstoðarmönnum þeirra. Það virðist inngróið í vinstrisinnaða stjórnmálamenn að bera vantraust til embættismanna og þess vegna verði þeir að hlaða í kringum sig heilum sæg af já-bræðrum til að hrinda stefnu sinni í framkvæmd. Þetta gerði Steingrímur J. á eftirminnilegan hátt með því að ráða þá Indriða H. Þorláksson og Svavar Gestsson til starfa undir merkjum fjármálaráðuneytisins, annan til að eyðileggja skattkerfið og hinn til að gera Icesave-samninga. Hvoru tveggja þjóðinni til mikillar óþurftar.

Það er ekki nóg með að unnt sé að fjölga ráðherrum og aðstoðarmönnum þeirra vegna nýrra laga um stjórnarráðið heldur hefur einnig verið samþykkt á alþingi að fjölga megi borgarfulltrúum í Reykjavík úr 15 í 31. Til hvers í ósköpunum? Þakka má fyrir að salur þinghússins sé ekki stærri. Ef svo væri hefði Jóhanna & co. flutt tillögu um að fjölga þingmönnum.

Mér blöskrar að með nýjum stjórnarráðslögum skuli aukið vald flutt til forsætisráðherra, sérstaklega nú þegar Jóhanna Sigurðardóttir situr í embættinu. Verri forsætisráðherra hefur þjóðin ekki kynnst. Jóhanna kemur varla í sjónvarp án þess að segja einhverja vitleysu. Það eitt dygði til þess í öðrum löndum að þingflokkur á bakvið forsætisráðherra gerði ráðstafanir til að halda eigin virðingu með því að falla frá stuðningi við hinn ósannsögula forsætisráðherra. Ég fjallaði um þetta á Evrópuvaktinni í dag eins og hér má sjá.

Sá í dag kínversku myndina Red Cliff sem sýnd er á kvikmyndahátíð í Kringlunni. Mér leikur jafnan hugur á að vita hvernig Kínverjar fella saman íhugun, athugun á náttúruöflunum og hernaðarlist. Það er svo sannarlega gert í þessari mynd, hinni dýrustu sem gerð hefur verið í Asíu. Að ég hafi séð fjölmennari bardagasenur á hvíta tjaldinu dreg ég í efa.