24.9.2011

Laugardagur 24. 09. 11

Skrapp til Þingvalla í dag og hreyfst af haustlitunum.

Í Sunnudagsmogganum birtist grein í dag um fjölmiðla og þróun þeirra með vísan til hrunsins og þess sem gerst hefur eftir það. Greinin er til marks um hve grunnt blaðamenn kafa þegar þeir fjalla um alvarleg mál. Saga undanfarinna ára sýnir að íslenskri blaðamennsku hefur hrakað. Einföldun er að setja það í samhengi við eignarhald á fjölmiðlum. Eigendur skrifa ekki blöðin þótt þeir eigi að sjálfsögðu síðasta orðið um hverjir starfa á blöðunum.

Saga Baugsmálsins er  öðrum þræði sorgarsaga íslenskrar blaðamennsku. Hún sýnir blaðamenn ekki í góðu ljósi. Sumir þeirra sem þá þjónuðu eigendum Baugsmiðlanna á forkastanlegan hátt starfa enn við blaðamennsku. Þeir þurfa ekki síður að gera upp við fortíðina en fjármálamenn eða stjórnmálamenn. Þá er greinilegt að hér skrifa menn enn í blöð eða netmiðla á þann veg að ganga erinda fjármálamanna án þess að viðurkenna að þeir séu fjölmiðlafulltrúar þeirra.