22.8.2006 21:25

Þriðjudagur, 22. 08. 06.

Fór í dag í leiðangur til Þingvalla með Pétri M. Jónassyni prófessor og Sigurði K. Oddssyni þjóðgarðsverði og ræddum við verndun þjóðgarðsins en ekki síst Þingvallavatns og lýsti Pétur miklum áhyggjum sínum af hættunni vegna mikillar umferðar um nýjan Gjábakkaveg og nálægðar hennar við vatnið.

Á leiðinni austur fórum við heim að Hrísbrú og þar kynnti Jesse Byock prófessor okkur merkar fornleifarannsóknir sínar.

Menntamálaráðuneytið birti í dag fréttatilkynningu um niðurstöðu úttektar á vegum OECD á íslenska háskólastiginu. Í frásögn Morgunblaðsins af úttektinni segir meðal annars:

„Í skýrslunni segir, að íslenska háskólakerfið hafi sýnt mikinn sveigjanleika og samkeppni milli háskóla hafi leitt til þess að komið hafi verið til móts við vaxandi eftirspurn en Ísland er nú í fjórða sæti innan OECD hvað varðar sókn í háskólamenntun.

Sérfræðingarnir segja, að stefna stjórnvalda hafi borið árangur og leitt til öflugrar háskólastarfsemi. Hins vegar megi benda á að frjálsræði geti orðið of mikið og komið niður á langtímamarkmiðum og góðri nýtingu fjármagns.

Farið er í skýrslunni lofsamlegum orðum um námslánakerfið á Íslandi og hvernig það hefur stuðlað að jafnrétti til náms. Þar segir þó, að mikilvægt sé að leggja áherslu á jafnræði nemenda, þ.e. að gæði þeirrar menntunar sem þeir njóta séu mikil og skili sér í tækifærum á vinnumarkaði.

Sérfræðingarnir segja, að Ísland standi framarlega í alþjóðavæðingu háskólamenntunar sem mikilvægt sé að viðhalda. Virkt alþjóðlegt rannskóknarsamstarf styðji við íslenska háskólamenntun. Mikilvægt sé að afla upplýsinga um hvernig menntun þeirra sem stunda nám erlendis skili sér til Íslands.“

Ég fagna þessum dómi OECD um þá háskólastefnu, sem ég hafði frumkvæði af að móta. Hún er í hrópandi mótsögn við neikvæð skrif Samfylkingarmanna um árangur í menntamálum, svo að ekki sé meira sagt.

Í kveðjuræðu sinni á flokksþingi framsóknarmanna sagði Halldór Ásgrímsson:

„Framlög ríkisins til fræðslumála eru áætluð 33,1 milljarður í fjárlögum 2006 og hafa aukist að raungildi um 12,3 milljarða frá árinu 1998 eða um 59%. Framlög ríkisins til fræðslumála samkvæmt fjárlögum 2006 nema um 3,2% af áætlaðri vergri landsframleiðslu. Árið 1998 nam þetta hlutfall 2,6%.

Framlög ríkisins til háskólastigsins eru áætluð um 16,7 milljarðar í fjárlögum 2006 og hafa aukist að raungildi um 7,4 milljarða króna frá árinu 1998 eða um 80% að raungildi.“