29.8.2006 22:26

Þriðjudagur, 29. 08. 06.

Rætt var við mig í Spegli Rúv um fangelsismál og baráttu gegn fíkniefnum. Mér kom í hug þegar ég ræddi málið og svaraði spurningum um, hvað ég ætlaði að gera til að stemma stigu við fíknefnavandanum, eins og ekkert væri sjálfsagðara en að ég gripi til harðra aðgerða í því skyni, að í þessum sama Spegli hefur jafnan verið leitast við að gera það frekar tortryggilegt, þegar ég ræði um nauðsyn þess að efla löggæslu, hvort heldur ég mæli með því að styrkja sérsveitina, kynni hugmyndir um þjóðaröryggisdeild eða segjast ætla að beita mér fyrir umræðum um leyniþjónustu. Án þessara aðgerða eða annarra af sama toga verður þó ekki tekið á fíkniefnavandanum af meiri þunga af hálfu þeirra, sem starfa að því á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Vilji menn ekki afhenda lögreglunni góð tæki til að vinna störf sín, bitnar það á störfum hennar.

Ég minni á blaðamanninn, sem sagðist frekar vilja, að barnið dytti í brunninn en að byrgja hann með þjóðaröryggisdeild. Mér skilst, að hann sé nú farinn til starfa hjá íslensku friðargæslunni.

Þeir félagar á Bylgjunni síðdegis ræddu einnig við mig um þessi sömu mál. Þeirra viðhorf er allt annað en hjá þeim, sem stjórna umræðum í Speglinum. Það er líka miklu meira hlustað á þátt þeirra en Spegilinn.