20.8.2006 21:44

Sunnudagur, 20. 08. 06.

Einstaklega fallegur dagur í Fljótshlíðinni og naut ég hans við slátt fram að hádegi. Í fyrra sló ég síðasta slátt 13. ágúst, svo að þetta er kannski hinn síðasti á þessu sumri.

Þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson eru sammála um eitt núna - að flokksþing framsóknarmanna hafi verið þing hinna glötuðu tækifæra eins og Össur orðaði það á vefsíðu sinni og Ingibjörg Sólrún síðan í sjónvarpsfréttum í kvöld.

Á Ingibjörgu Sólrúnu var að skilja, að framsóknarmenn hefðu glatað tækifæri með því að kjósa ekki konu sem formann.  Össur er örugglega sannfærður um, að Samfylkingin hefði ekki glatað eins miklum stuðningi samkvæmt skoðnakönnunum, hefði karl verið kjörin formaður Samfylkingarinnar síðast.

Flokksþing eru jafnan upphaf tækifæra í lífi stjórnmálaflokks. Gildi þeirra ræðst af því, hvernig forystusveit og flokksmönnum tekst að vinna úr því, sem þingin ákveða.