2.8.2006 21:58

Miðvikudagur, 02. 08. 06.

Eins og jafnan á þessum árstíma verða töluverðar umræður um tekjur og skatta einstaklinga. Umræður um að skattskrár skuli vera opnar öllum um ákveðinn tíma eru einnig orðnar árvissar. Þær sporna kannski gegn því, að farið verði inn á sömu braut og Norðmenn hafa farið, viti ég rétt, að upplýsingar af þessu tagi séu aðgengilegar öllum, alltaf á netinu - telja má næsta víst, að ritstjóri Frjálsrar verslunar yrði því ekki meðmæltur.

Í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins 1. ágúst sagði meðal annars: „Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar, segir að með því að hafa álagningaskrárnar opinberar megi sannreyna að ákveðnir hópar taki mun meira til sín en aðrir. Hægt sé að taka á þessu með breytingum á skattkerfinu, menntakerfinu eða fara í auknar jöfnunaraðgerðir í velferðarkerfinu.“ Þá var þetta haft orðrétt eftir Ingibjörgu Sólrúnu: „En þessi ríkisstjórn, hún bara gerir það ekki, vegna þess að hún hefur ekki þá stefnu. Þess vegna er það ríkisstjórnin sem þarf að fara frá og ég ætla ekki að fara að tala hér fyrir neinum aðgerðum öðrum en þeim. Vegna þess að það er fullreynt eftir setu þessarar ríkisstjórnar í 11 ár að hún er ófær um það.“

Þetta er skrýtilegur boðskapur, þegar umræðurnar snúast einkum um það, hve tekjur margra eru háar og athygli beinist einkum að bönkunum og starfsmönnum þeirra, auk þess sem há laun lækna á landsbyggðinni hafa vakið athygli. Ef Ingibjörg Sólrún hefði bent á, að laun bankastjóra og bankastarfsmanna hefðu farið að hækka, eftir að þeir voru einkavæddir og þess vegna hefði ekki átt að selja þá úr ríkiseigu, væri heil brú í röksemdafærslunni um ábyrgð ríkisstjórnarinnar - en hún ber ekki ábyrgð á launagreiðslum einkarekinna banka frekar en annarra einkafyrirtækja.

Raunar má segja, að í þessu svari Ingibjargar Sólrúnar um, að hún ætli ekki að tala fyrir neinum aðgerðum, vegna þess að ríkisstjórn annarra flokka en hennar sé við völd, endurspegli hina algjöru uppgjöf, sem einkennir Samfylkinguna. Rökræður eru bannorð en sjálfstýringin sett gegn ríkisstjórninni eða í stefnu á Brussel og inn í Evrópusambandið - þar á sjálfstæðri efnahagsstjórn á að ljúka í eitt skipti fyrir öll með því að leggja niður krónuna og taka upp evru.