15.8.2006 20:42

Þriðjudagur, 15. 08. 06.

Skoðuðum sýningu í Óperuhúsinu í Bayreuth í tilefni af því, að 130 ár eru liðin frá fyrstu uppfærslu Niflungahringsins. Þar er að finna frásagnir frá öllum uppfærslunum, sýnishorn af leikmyndum og búningum auk þess sem lýst er viðtökum við einstökum uppfærslum og fjallað sérstaklega um það, hvernig Hitler leitaðist við að nýta sér verk Wagners. Uppfærslan frá 1976 er sú, sem fengið hefur bestar viðtökur áheyrenda í Festspielhaus, en sagt er að lófatakið í lok Ragnaraka hafi varað í 90 mínútur og söngvarar og aðrir hafi verið kallaðir 100 sinnum fram. Þetta gerðist í lok sýningaferilsins, það er eftir að uppfærslan hafði runnið sitt fimm ára skeið - en í fyrstu var henni kuldalega tekið.