19.8.2006 20:01

Laugardagur, 19. 08. 06.

Fallegur menningarnætur dagur og tugþúsundir manna í borginni að njóta þess, sem í boði er.

Jón Sigurðsson kjörinn formaður Framsóknarflokksins með um 54% atkvæða eftir baráttu við Siv Friðleifsdóttur. Guðni Ágústsson endurkjörinni varaformaður með um 60% eftir baráttu við Jónínu Bjartmarz. Sæunn Stefánsdóttir nær því sjálfkjörin ritari eftir að Kristnn H. Gunnarsson og Birkir J. Jónsson þingmenn drógu framboð til baka.

Eftir að hin nýja forystusveit hefur verið kjörin, leggja framsóknarmenn mikla áherslu á nauðsyn þess að ná sáttum í flokknum - það muni örugglega takast. Í kosningabaráttunni fyrir flokksþingið var  hvað eftir annað áréttað, að innan flokksins ríkti ekki ágreiningur um nein málefni.  Um hvað hafa framsóknarmenn deilt svona mikið? Hvaða mikla ágreiningi hefur nú verið ýtt til hliðar?

Ég óska nýrri forystusveit Framsóknarflokksins til hamingju með kjörið og alls góðs í mikilvægum störfum.