27.8.2006 21:30

Sunnudagur, 27. 08. 06.

Var klukkan 11.00 í Snorrastofu í Reykholti og hitti þar Berg forstöðmann og kynnti mér starfsemi stofunnar en fyrir skömmu sýndi sveitarstjórn Borgarbyggðar mér þann heiður að kjósa mig í stjórn Snorrastofu. Starfsemi hennar hefur vaxið og dafnað undanfarin ár undir forystu Bergs og í góðu samstarfi við sr. Geir Waage, sóknarprest í Reykholti, og frumkvöðul að því að hefja staðinn til nýrrar virðingar með góðum stuðningi konu sinnar, Dagnýjar Emilsdóttur, sem stjórnar móttöku gesta á vegum Snorrastofu.

Vorum í fjölsóttri messu hjá sr. Geir kl. 14.00, síðan í kirkjukaffi og hlýddum síðan á fyrirlestur Guðrúnar Sveinbjörnsdóttur, forleifafræðings, um fornleifagröft til að rannsaka sögu kirkjubygginga í Reykholti, en hún telur, að nú sé komið niður á fyrstu kirkjuna eftir kristnitöku. Öll sæti í sal Snorrastofu voru setin undir fyrirlestri Guðrúnar.

Að loknum fyrirlestrinum leiddi Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður allan hópinn austur að nýendurgerðri, gömlu kirkjunni í Reykholti, sem nú er orðin hluti af húsaminjasafni Þjóðminjasafns. Hún bað mig að opna kirkjuna og síðan afhenti ég sr. Geir lykilinn að henni.´

Héldum af stað heima leið kl. 17. 30 og ókum í einstaklega falleu veðri um Uxahryggi og Þingvelli til Reykjavíkur.