31.8.2006 21:22

Fimmtudagur, 31. 08. 06.

Rétt fyrir hádegi var tekið við mig viðtal fyrir síðdegisútvarp Rásar 2 og snerist það að mestu um störf og starfshætti lögreglu. Einnig var ég spurður um, hvort ég ætlaði í framboð næsta vor og sagðist ég ætla að bjóða mig fram einu sinni enn og sækjast eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Var í Kastljósi þar sem Kristján Kristjánsson ræddi við mig um fangelsismál. Ég hafnaði því alfarið, að eitthvert ófremdarástand ríkti hér í fangelsismálum - þvert á móti hefði verið tekið skipulega á öllum þáttum fangelsismála og fyrir lægju skýrar hugmyndir um, hvernig standa ætti að endurnýjun húsakosts, þegar fjármunir fengjust. Rétt væri að fíklum í fangelsum hefði fjölgað og þar væru því miður nokkrir harðsvíraðir ungir menn. Markmið mitt væri, að ná fólki í þessum vanda í meðferð áður en kæmi að því, að dæma yrði það til fangavistar. Í samvinnu við nýjan lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu hefði ég lagt á ráðin um aðgerðahóp til að takast á við fíkniefnasala. Ég væri viss um, að enn væri unnt að ná betri árangri með nýjum starfsaðferðum lögreglu og tollgæslu. Þá hefði verið tekin ákvörðun um fíkniefnahund á Litla Hrauni, en hann kæmi frá Þorsteini Hraundal og myndi nánar skýrt frá því síðar. Loks hefði mér daginn áður verið kynnt ný skýrsla um uppbyggingu á Litla Hrauni, sem sýndi 100 milljón króna sparnað við framkvæmdir frá fyrri skýrslu. Undirbúa yrði allar framkvæmdir vel og af kostgæfni til að tryggja ýtrustu hagkvæmni - að loknum slíkum undirbúningi yrði að óska eftir fjármunum með nauðsynlegum þunga.