11.10.1999 0:00

Mánudagur 11.10.1999

Annan hvorn mánudag eru svonefndar óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra á dagskrá alþingis. Þá geta þingmenn spurt ráðherra um hvaðeina, sem þeir telja, að eðlilegt sé að þeir svari. Eru 30 mínútur ætlaðar í þennan lið á dagskrá þingsins og hefst hann klukkan 15.00 að loknum þingflokksfundum. Þennan mánudag spurði Svanfríður Jónasdóttir mig um menningarhús og Ísólfur Gylfi Pálmason um Fræðslunet Suðurlands. Menntamálaráðuneytið efnir að minnsta kosti tvisvar sinnum á skólaárinu til samsráðsfundar með skólameisturum. Að þessu sinni var fundurinn haldinn í Reykholti í Borgarfirði. Fór ég þangað síðdegis, tók þátt í umræðum og kvöldverði.