14.10.1999 0:00

Fimmtudagur 14.10.1999

Klukkan 11.00 hélt ég til Akureyrar. Þar tók ég þátt í umræðum á aðalfundi Útvegsmannafélags Norðurlands um menntamál. Voru þar kynntar hugmyndir um að einkavæða nám stýrimanna og vélstjóra í samræmi við ályktun á síðasta aðalfundi LÍU. Þá fór ég í Menntaskólann á Akureyri og hitti forvígismenn hans. Ég leit inn í Listasafn Akureyrar og ræddi við Hannes Sigurðsson, nýráðinn forstöðumann. Loks var ég viðstaddur þegar Ellert B. Schram, forseti ÍSÍ, og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, rituðu undir samstarfssamning um skrifstofu ÍSÍ á Akureyri. Tók ég flugvél klukkan 18.10 og var kominn á frumsýningu hjá Íslenska dansflokknum í Borgarleikhúsinu klukkan 20.