20.10.1999 0:00

Miðvikudagur 20.10.1999

Svaraði fyrirspurnum á alþingi, sem báðar snertu málefni Ríkisútvarpsins. Er athyglisvert að flestar fyrirspurnir til mín á þessu hausti snerta málefni RÚV. Að þessu sinni snerust þær um dreifikerfið og hvort hugmyndir væru um að breyta RÚV í hlutafélag. Lýsti ég þar áhuga stjórnenda RÚV á því að hlutafélagavæðast í eigu ríkisins og vinnu sem hefði verið unnin á vegum menntamálaráðuneytisins í samræmi við þennan áhuga. Ég sagði, að þessar breytingar næðu ekki fram að ganga nema um þær væru víðtæk pólitísk samstaða. Innan Framsóknarflokksins eru skiptar skoðanir um málið, því að ungir menn í flokknum vilja hlutafélag í eigu ríkisins en flokksþing framsóknarmanna hefur ályktað á annan veg. Ég sá í Degi, að útvarpsráðsmaður Samfylkingarinnar. Mörður Árnason, telur að breyta þurfi rekstrarfyrirkomulagi og nefndi hann sjálfseignarstofnun. Ég er þeirrar skoðunar, að vilji menn á annað borð fara inn á þessa braut sé hlutafélag mun skynsamlegri kostur fyrir svo stóra stofnun í samkeppnisrekstri en sjálfseignarskipulag. Tók þátt í umræðum utan dagskrár um kjarnorkuvopn og Ísland . Taldi það til marks um að mér hefði tekist bærilega að koma skoðunum mínum til skila, þegar Margrét Frímannsdóttir, formaður Alþýðubandalagsins, fór á gamlar nótur og kenndi mig við kaldastríðið. Hitti þátttakendur í tungumálanámskeiði á vegum Evrópskrar miðstöðvar um tungumál, sem starfar á vegum Evrópuráðsins og er með aðsetur í Graz í Austurríki.