21.10.1999 0:00

Fimmtudagur 21.10.1999

Sótti ráðstefnu Evrópuráðsins í Róm um upplýsingarækni og menningu. Flutti ég ræðuvið upphaf ráðstefnunnar og síðan að nýju þegar fjallað var um sérstök verkefni á sviði menningarmála, þar sem upplýsingatækni er nýtt. Var mjög fróðlegt að hlýða á umræður á þessari ráðstefnu og taka þátt í þeim. Þar eins og áður sóttu hins vegar að mér efasemdir um það, hve miklar vonir stjórnvöld geta gert sér um að þau hafi svör við öllum spurningum sem vakna vegna nýju tækninnar eða hve miklu þau geta stjórnað með samþykktum og reglum. Er reglustjórnar viðhorfið ríkt meðal Evrópumanna og þekkjum við það héðan úr umræðum um mörg mál. Tími gafst til þess að skoða grafhýsi undir Péturskirkjunni. Séra Jakob í kaþólska söfnuðinum hér á landi var í Róm og hafði ég beðið hann að athuga, hvort ég gæti fengið sérstaka leiðsögn um þær minjar, sem hafa fundið undir Péturskirkjunni. Fórum við í ógleymanlega pílagrímsferð að gröf Péturs postula undir leiðsögn bandarísks djákna síðdegis laugardaginn 23. október. Er of langt mál að segja frá henni hér. Var einstakt að fá leyfi til þessarar ferðar, því að unnið er að uppgreftri á þessum sögufræga stað og svæðið í raun lokað. Þá gafst einnig tóm til þess síðdegis sunnudaginn 24. október að fara í nákvæma skoðunarferð um Forum Romanum með sérfræðingi í öllu, sem lýtur að rústunum þar. Sú ferð um sögu Rómaveldis verður einnig ógleymanleg.