1.10.1999 0:00

Föstudagur 1.10.1999

Alþingi sett klukkan 13.30 - messa í Dómkirkjunni, hin fyrsta eftir gagngera viðgerð á henni, sem ekki er lokið. Bekkir hafa meðal annars verið styttir þannig að unnt er að ganga inn í þá frá útvegg kirkjunnar. Um þetta hafði staðið áralöng deila milli safnaðarnefndar og húsafriðunarnefndar. Heimilaði ég að lokum, að bekkirnir yrðu styttir. Sé ég ekki annað en allt sé þetta til bóta í kirkjunni. Klukkan 17.00 haldið upp á 35 ára afmæli Tækniskóla Íslands í Salnum í Kópavogi, þar sem ég flutti ávarp. Klukkan 20.30 fórum við á frumsýningu á hinu áhrifamikla leikriti Fedra í Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins.