21.11.2005 21:06

Mánudagur, 21. 11. 05.

Dagskrárliður þingsins - óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra, sem var á dagskrá í upphafi þings í dag - var að ég held hugsaður til að unnt yrði að koma ráðherrum í opna skjöldu með spurningum um málefni líðandi stundar. Þessi liður er á dagskránni á 2ja vikna fresti og stendur í 30 mínútur. Hann er hins vegar orðinn heldur máttlaus vegna þess að í upphafi næstum hvers þingfundar er verið að ræða einhver málefni líðandi stundar annað hvort utan dagskrár eða undir dagskrárheitum eins og stjórn þingisins eða fundarstjórn forseta, en undir þessum liðum hefur tíðkast að fara um víðan völl og ræða hvaðeina, sem á þingmönnum hvílir, með ósk um að einhver ráðherranna bregðist við og svari eða láti í ljós skoðun sína.

Oft er talað um að framkvæmdarvaldið, það er ríkisstjórnin eða einstakir ráðherrar séu of fyrirferðarmiklir á þingi og frumvörp þeirra eða jafnvel duttlungar setji of mikinn svip á þingstörfin. Ef einhverjir ýta undir þessa mynd af þingstörfum eru það einmitt stjórnarandstöðuþingmenn, sem helst vilja ekki halda ræðu í þinginu nema einhver ráðherra sitji og hlusti á hana, eða finnst þeir ekki geta gengið til almennra þingstarfa, án þess að hafa gert atlögu að einhverjum ráðherranna og leyft honum að láta ljós sitt skína í upphafi þingfundar. 

Þá gerist það alltaf reglulega að einhver forystumaður úr stjórnarandstöðunni, að þessu sinni Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, stendur upp til að ræða störf þingsins og kvartar undan skorti á stjórnarfrumvörpum og telur það jafnvel til marks um óeiningu á stjórnarheimilinu, ef frumvörp ríkisstjórnarinnar hvolfast ekki yfir þingheim á fyrstu vikum þinghaldsins, sem almennt eru helgaðar úrvinnslu fjárlagafrumvarpsins.

Ráðherrar svara einnig fyrirspurnum þingmanna, sem eru undirbúnar á þingskjölum og er annað hvort beðið um munnlegt eða skriflegt svar ráðherra. Á haustþinginu hafa hrannast upp fyrirspurnir en samkvæmt starfsáætlun þingsins á að svara þeim síðdegis á miðvikudögum. Nú hefur orðið að lengja fundartíma á miðvikudögum og halda aukafund á föstudögum til að grynnka á spurningalistanum. Ég ætlaði að svara fjórum fyrirspurnum sl. miðvikudag en gat aðeins svarað tveimur, því að annar fyrirspyrjanda var ekki í þingsalnum, þegar röðin kom að spurningu hennar, og hinn fyrirspyrjandinn hafði gleymt spurningu sinni í skrifstofu sinni handan Austurvallar!