Laugardagur, 03. 12. 05.
Vetrarstillur og ljósbrigði gera ekki síður heillandi að fara úr ys og þys borgarinnar en sumarhitinn og birtan auk þess sem hávaði frá umferð og heyvinnslutækjum er enginn á þessum árstíma.
Viðtalið við Hreggvið Jónsson, fyrrverandi forstjóra Norðurljósa, í Morgunblaðinu í dag í tilefni af því, sem um hann er sagt í bók Einars Kárasonar rithöfundar um Jón Ólafsson, sem kenndur er við Skífuna, bætist við allt annað, sem sagt hefur verið um þessa bók og er á þann veg, að þar sé ekki endilega verið að birta það, sem sannara reynist.
Í Lesbók Morgunblaðsins í dag skrifar Matthías Johannessen meðal annars: „Það sem ég hef á móti peningum er sú árátta auðmanna að kaupa sér völd. Það er hægt að kaupa allan fjárann, áhrif, afstöðu, skoðanir. Það er hægt að kaupa lögfræðinga, endurskoðendur, já hvern ekki? Það er jafnvel hægt að kaupa fjölmiðla.“ Þegar viðtalið við Hreggvið er skoðað í þessu ljósi má þá bæta við upptalningu Matthíasar - ævisögu?