9.12.2005 0:09

Föstudagur 09. 12. 05.

Ríkisstjórnin kom saman klukkan 09.00 í morgun en þingfundir hófust kl. 10.30 en þá var ég í Bústaðakirkju við brautskráningu úr Lögregluskóla ríkisins, þar sem ég flutti ávarp.

Síðdegis dró að lyktum þingstarfa og rúmlega 17.00 hófst lokaafgreiðsla en undir lok funda varð stutt umræða um hæstaréttardóm, sem gekk í gær, þar sem fundið var að því, hvernig félagsmálaráðherra stóð að starfslokum Valgerðar H. Bjarnadóttur við Jafnréttisstofu og henni dæmdar skaðabætur. Kröfðust stjórnarandstæðingar afsagnar Árna Magnússonar en greinilegt var af umræðunum, að hugur fylgdi ekki þessari kröfu, enda ekki nein rök fyrir henni. Dómurinn er til leiðbeiningar um beitingu þeirra laga, sem koma til álita við starfslok opinberra starfsmanna.

Í dag var birt álit umboðsmanns alþingis vegna kvartana talsmanna Falun gong manna yfir því, að þeim var bannað að fara um borð í Flugleiðavélar í júní árið 2002, þegar þeir vildu koma hingað til lands til að mótmæla forseta Kína. Umboðsmaður vísaði til útlendingalaga frá 1965 og taldi þau ekki hafa heimilað aðgerðir stjórnvalda á þessum tíma. Á þeim þremur og hálfa ári, sem liðin eru frá þessum atburðum, hafa ný útlendingalög verið sett.