29.12.2005 18:14

Fimmtudagur, 29. 12. 05.

Í morgun las ég í The New York Times, að dálkahöfundurinn David Brooks hefði fyrir tólf mánuðum stofnað verðlaun kennd við heimspekinginn Sidney Hook fyrir bestu stjórnmála- og menningarritgerðir ársins. Hann skýrir frá því, að verðlaunin veiti hann David Samuels fyrir ritgerðina In a Ruined Country í tímaritinu The Atlantic Monthly en hún snýst um Yasir Arafat eins og hér má lesa að minnsta kosti í nokkra daga, eins og segir á síðunni.

Þrefið um launamál okkar, sem lútum kjaradómi heldur áfram. Eftir að forsætisráðherra hafði fengið neikvætt svar frá kjaradómi í gærkvöldi, ákvað hann að skipa þverpólitíska nefnd til að ræða málið, áður en þing kemur saman að nýju 17. janúar 2006. Við svo búið skýrðu þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, frá því, að þau myndu ekki skipa menn í þessa nefnd nema ákveðið yrði, að alþingi kæmi saman milli jóla og nýárs.